föstudagur, apríl 20, 2007

Já, það er komið sumar og sól í heiði skín (vonandi fljótlega)


Gleðilegt sumar elskurnar mínar! :-)

Svo seigja mér fróðari menn að vetur og sumar hafi frosið saman í ár og boði það góða tíð! Við skulum nú bara rétt vona það.

Það er dálítið skrýtið að hugsa til þess að sumarið sé komið, því að í dag er dumbungur yfir borginni og eitt og eitt snjókorn hefur sést falla niður á annars algræna jörðina. Við verðum víst bara að krossa fingurnar okkar og biðja til þess að hlýni fljótlega - ég hef nefnilega smá áhyggjur af greyið plöntunum mínum, þó að mér hafi verið sagt frá traustum heimildarmanni mínum, að þeim líði bara ágætlega og að öspin mín sé enn dugleg við að stækka! ;-)

Núna síðastliðna viku hefur hann faðir minn legið á sjúkrahúsi. Hann er búinn að vera veikur um tíma og var svo lagður inn á sjúkrahúsið við Fossvoginn á laugardaginn síðasta. En þar sem rannsóknir eru enn í gangi og hafa enn sem komið er engu skilað, þá sé ég ekki mikla ástæðu til að hafa þennan svaðalega kvíða sem brýst nú um í mér. En oft er auðveldara að segja svona hluti, heldur en að koma þeim í gegn. Mér sýndist þó á dögunum að "sá gamli" hafi verið hálf klökkur yfir því hve marga góða hann á að og segir það mér bara það eitt, "engin veit fyrr en reynir á, hvort vini átt þú þá". Hef ég þó grunað lengi að þótt fá eigi ég vinina, þá eru vinir mínir þeir bestu sem hægt er að kjósa sér. Og hana nú! (Mér finnst ég svo rík). Ég bið því ykkur nú, vinir mínir að biðja til náðugs Drottins okkar um að faðir minn nái heilsu.

Ég hef nú ekki alltaf verið barnanna best þegar að veikindum kemur. Það vita þeir sem þekkja mig vel og einna best foreldrar mínir. Þegar ég var barn lagði ég yfirleitt mikið á mig til að veikjast rétt fyrir allar hátíðar og ferðalög. Í dag, virðist ástandið vera óbreytt. ;-) Því að núna kostuðu "veikindi" mín mig heila önn í skólanum. Og mér sem er að batna núna! Það er líklegast kominn tími til, eftir endalausar lyfjainntökur á ofnotuðum sýklalyfjum og bætiefnum. En bara af því að það fraus með vetri og sumri, hef ég trú á að veikindakaflanum sé lokið þetta árið og verði hér eftir veikindafrítt - alla vega þar til jólin nálgast. ;-)

Það er búið að vera nokkuð mikið að gera í vinnunni hjá Hafliða mínum, en hann á alltaf tíma fyrir elskuna sína og fjölskyldu. Við fórum þó ekki á árshátíðina í vinnunni hjá honum í ár, þó svo að blessaður bróðir minn hafi verið að spila þar. En kannski förum við á komandi ári, ef sættir nást innan stjórnar árshátíðarnefndarinnar um hvar, hvenær og hvernig skuli hátíðin haldin. Það er aldrei að vita! Ef að matseðillinn er góður - þá mætum við örugglega! ;-)

Það er dálítið merkilegt að þó svo að engin sé skólinn hjá mér núna, þá sit ég ekki aðgerðarlaus. Það eru alls konar fundir, samkomur og skemmtanir sem taka mig upp á arma sína núna. Svo auðvita "skemmtilegu" heimilisstörfin og þjálfun af ýmsum toga. (Tja, það er alla vega togað mikið). ;-) Gaman þætti mér þó að fá einhvern gönguferðafélaga. Það reynist þó oft þrautinni þyngra að finna hann, því að göngulag mitt hefur lítið sem ekkert breyst frá tímum þríeykisins ógurlega og reynist erfitt að finna einhvern sem gengur þannig. ;-)

Þá er Þetta komið í bili elskurnar, en ég bið Guð og allar góðar vættir (eftir á hvað þið trúið) að blessa ykkur og halda yfir ykkur verndandi hendi. Og kveð ég svo að sinni með þessum orðum:

Vertu til er vorið kallar á þig
Vertu til að leggja hönd á plóg
Komdu út, því að sólkinið vill sjá þig
Sveifla haka 'og rækta nýjan skóg
Hei! :-)

Hrannsla.

3 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Það er svo gott að þú ert að hressast og pabbi þinn líka :o)
Hvernig verður með sundið?? á ekki að fara að drífa í dýfingum??
Og endilega ö-ið burt.
Kv. mamma

23 apríl, 2007 22:34  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Það er að koma sumar, alveg rétt bráðum eða fljótlega eða næstum alveg, skóli,,,, ein önn ónýt sem þýðir að næsta verður bara betri :) "batnaðarkveðjur" til þín og pabba þíns, þið eruð nú svo spræk að dagsfari að þið hristið þetta af ykkur án nokkur vafa.
Hafðu það gott á fundum, skemmtunum, samkomum, og komandi ferðalögum :)

24 apríl, 2007 18:33  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Vildi bara kvitta fyrir mig... vonandi eru allir hressir.

kv. Unnur

09 maí, 2007 12:26  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim