mánudagur, júní 25, 2007

Komin heim úr sælunni.

Jæja gott fólk, þá erum við komin heim um stund, eftir nokkura daga dvöl í sveitinni. Fyrir þá sem ekki vita, þá er hún á Barðaströnd. ;-)



Þessi stutta dvöl var alveg hreint yndisleg! Við fengum alveg brillíant veður og það ringdi bara einu sinni um nótt. Annars var þurrt og "gula fíflið" (sólin) var dugleg að sína sig. - Enda sést það afar vel á þeim brunarústum sem ég er í dag. ;-)


Þessi mynd hér er tekin við hylinn í landi sveitarinnar, við hjónin fórum þangað á laugardaginn til að kæla okkur - enda hitinn óbærilegur.

Við vorum ansi dugleg að klippa í burtu allt háa grasið sem var komið í kringum plönturnar okkar. Það tók reyndar drjúgan tíma - en það tókst á endanum. Og ég get stolt sagt frá því að mikið af plöntunum okkar lifði veturinn af. Meiri hlutinn af viðjunni, sem ég taldi af, lifði. Og birkið er að standa sig með prýði. Það sem ekki lifði, hafði farið upp úr moldinni, hvort sem það var að völdum vinds eða vatns. En við komum bara til með að setja nýjar í þeirra stað!!! Bara harka hér.

Nú svo að ég haldi áfram að tala um plönturnar mínar, þá færðum við frumburð okkar í sveitinni, ÖSPINA, á þann stað sem hún kemur til með að vera á. Það er vonandi að hún dafni vel þar, þó að jarðvegurinn sé ekki eins og góður og þar sem hún var. En hún er komin með sveran og sterkan stofn og hefur vaxið vel þessi þrjú ár sem hún hefur verið í sveitinni. (Hún er orðin svo falleg). :-D Reynitrén komu verst út, en við sjáum hvernig þau verða í júlí. Bjartsýni skaðar ekki.


Við hjónin fengum skemmtilegan dag í boði mömmu og pabba á föstudaginn. En þá byrjuðum við á því að stoppa á Breiðavík og nýttum okkur auðvita salernisaðstöðuna þar - enda allt þarna orðið mjög fínt og flott. Síðan stoppuðum við örlítið við Hvallátra, svona rétt til að smella af nokkrum myndum og brunuðum svo út á Látrabjarg. Þar gengum við Hafliði auðvita upp til að sjá, en nenntum ekki upp á efstu toppana. (LETINGJAR). En fyrir þá sem ekki hafa komið þangað er hér með bent á að ef þeir leggja leið sína þangað, að hafa með sér aðdráttarlinsu - því fuglalífið í bjarginu er stórkostlegt! Ég tók þessa mynd af lunda á Látrabjargi og tók það mig dágóðan tíma að komast svo nálægt honum. :-)


Nú síðasti, en alls ekki sísti, viðkomustaður okkar áður en við héldum heimleiðis, var Keflavík. Þessi mynd er tekin á leiðinni niður í víkina og þarna sést Rauðisandur fyrir miðju, en Keflavík sést ekki, en sjórinn gengur að henni vinstra megin. Ég mæli nú ekki með því að fólk fari á bílum þangað niður, enda ómögulegt fyrir fólksbíla. Oft á leiðinni tók ég andköf og hélt hreinlega að þetta væri mitt síðasta. Vegurinn niður að Keflavík (ef veg skyldi kalla) er ansi grýttur og mjór. Á köflum þarf að hlaða grjóti svo að bíllinn komist. En við höfðum það væntanlega af, þar sem ég sit hér heima hjá mér og skrifa þetta blogg. ;-)

Áður en að farið er niður að Keflavík, er hálfgerð skylda að búa til vörðu, svona rétt til að komast upp aftur. Það er alveg magnað að sjá allar vörðurnar sem hafa verið reistar á leiðinni. En það skrýtnasta er að þegar að við komum niður í víkina, var þar sirka tuttugu manna hópur frá Ferðafélagi Íslands, sem hafði gengið þangað og beið eftir þremur bátum til að sækja þau og ferða yfir að Hvallátrum. Þau voru öll ægilega ánægð með ferðina sína og skal engan undra, á svona fallegum slóðum. Þegar strákarnir komu að sækja fólkið á bátunum, höfðu þeir tekið með sér ýmislegt nesti og þar á meðal bjargfuglsegg, sem þeir gáfu okkur af líka. Ég gaf reyndar pabba mitt, þar sem ég sá að hann langaði svo í það. ;-) Svo ferjuðum við tuttugu bakpoka yfir að Hvallátrum, fórum svo aðeins í búðina og síðan heim. Þar sem allir voru búnir eftir ferðalagið, fórum við að sofa um klukkan tíu það kvöldið.


Á laugardaginn ætluðum við að gera svo mikið, en nenntum engu, þar sem að hitinn var 23 gráður í skugga. Þannig að laugardagurinn varð bara að því sem hann er: LAUGARdagur. Við hjónakornin sprautuðum vatni úr garðslöngunni hvort á annað - svona sturta! ;-) Nema að akkúrat þegar ég var með sápu yfir mig alla og Hafliði að gera sig reddí að skola mig, kom rúta keyrandi fram hjá, full af fólki. Og ég átti fótum fjör að launa, svo að þau sæju mig ekki standa þarna kviknakta! *Ég hlakka svo til þegar að sturtan verður komin upp inni í bænum* Þannig að vinnumikli laugardagurinn okkar, fór í algjöra leti og leiki. Það kom reyndar margt fólk í heimsókn þann dag, en það var ofboðslega gaman. :-)



Meira var það ekki í bili, enda er ég búin að blaðra nóg! En smá myndasería að neðan!!!

Hrannsla.













Mamma & Hafliði við björgunarsveitarskýlið í Keflavík.













Við hjónakornin í sveitinni.














Það er smá munur á bílnum okkar og Garðari! Eða hvað finnst ykkur???



Séð inn Patreksfjörðinn.















Pabbi að horfa á "björgunaraðgerðirnar" í Keflavík.












Hafliði minn að kæla sig í hylnum.











Pabbi & mamma með bjargfuglseggin sín í Keflavík.




Útsýnið frá okkur yfir Snæfellsnesið.

3 Ummæli:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Hvað ertu bara komin heim??

26 júní, 2007 19:37  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Hæ þú yndislega vinkona, gaman að sjá þessar æðislegu myndir, þú ert snillingur með myndavélina! Ég er loks laus af sjúkrahúsinu eftir 2 mánuði í bælinu og ætla að reyna að njóta restarinnar af sumrinu sem verður í minningunni "sumarið sem ég missti af"... Takk elskan fyrir hvað þú varst einstaklega dugleg að líta til mín, elska þig dúllan mín. Beta Hækja

27 júlí, 2007 00:24  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Sæl Beta mín, vonandi fer þér að batna!!! Ég bjalla á þig þegar að ég kem í bæinn aftur.

Kveðja, Hrannsla.

29 júlí, 2007 23:59  

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim