fimmtudagur, janúar 10, 2008

BLOGG - LOK!

Ég hef ákveðið að færa mig um set og loka þessari bloggsíðu þann 1. febrúar n.k.

Í staðin bíð ég upp á endurbætta bloggsíðu: http://draumadisa.bloggar.is/ , Og vonast til að þið heimsækjið mig þar. Þeir sem ekki vita lykilorðið geta haft samband við mig.

Bestu kveðjur og þökk fyrir góð samskipti á liðnum árum,
Hrannsla.

mánudagur, janúar 07, 2008

Gleðilegt nýtt ár - 2008.

Þessi mynd er af litla sæta jólatrénu okkar.
Jæja elskulega fólk. Gleðilegt nýtt árið og takk fyrir allar gjafir, öll kort og hlýjan hug!







Jólunum lauk nú bara í gær, en ég er samt ekkert að flýta mér að taka þau niður á mínu heimili - ég meina, íbúðin er svo fín og falleg í svona skraut-búningi. Það er alveg satt!


En alla vega, þá vona ég að þið hafið haft það rosalega gott yfir hátíðirnar og borðað á ykkur gat, svona rétt eins og við. ;-) Þetta hefur verið ógurlegur át-tími og maður myndi örugglega sóma sig með prýði í stíjunum hjá grísunum í húsdýragarðinum.

Jólin hjá okkur voru fremur óhefðbundin. Við vorum tvö í fyrsta skipti á jólunum. En vitiði hvað??? Við fíluðum það bara mjög vel. :-) Við fórum í messu í Langholtskirkju á aðfangadag, en ég efast um að við látum sjá okkur þar aftur á komandi árum, sökum mikils galsa í ykkar mönnum. En það var alla vega mjög gaman hjá okkur!

Við komum svo heim eftir messuna og elduðum okkur þetta fína og flotta Londonlamb með öllu tilheyrandi. Mmmm... Það var æðislegt og ég komst vel að því að við gætum þetta alveg sjálf. ;-) Mamma og pabbi komu svo og opnuðu gjafirnar með okkur. Þau fengu sér líka smá smakk af eftirréttnum (sem var ís) og kaffi - þetta var ógurlega gaman og spennandi á köflum. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan.
Ég held svei mér þá að gjafirnar undir trénu þetta árið hafi sæmt stórfjölskyldu. Sem er nú harla ólíkt þeirri sem við búum við. En samt sem áður segir það okkur að margir hugsa hlýtt til okkar og okkur þykjir afar vænt um það!


Jóladagurinn rann sitt skeið með meira af áti og afslöppun (ekki veitir af því að slappa af og hvíla sig svo vel á eftir). Eða er það ekki málið? Annar í jólum var við það sama, en þriðja í jólum var vinnudagur og svo fórum við norður þann fjórða í jólum.


Við ætluðum nú aldrei að komast norður vegna þess að bíllinn okkar var búinn að liggja á verkstæði yfir jólin. Svo þegar að við ætluðum af stað, þá fór kveikjuhamarinn og eitthvað sem að ég ekki man hvað heitir. En það blessaðist fyrir rest og við sluppum á bílnum. Það mátti þó ekki miklu muna að við kæmumst ekki vegna veðurs - en við sluppum lánsamlega við það líka. Þannig að segja má að för okkar hafi tekist vel ef miðað er við útlit og undirbúning (sem var af skornum skammti). En hvernig var það nú aftur, var ekki "smá" rigning hér sunnan heiða? ;-)

Við unnum okkur vel fyrir norðan í sannkallaðir matar-svallveislu. Það var ægilegt fjör hjá yngsta meðlimnum þegar "Haliði" frændi kom. Það var bara gaman af því. Þó verð ég að viðurkenna að ég skil ekki hvers vegna "amma" breytist allt í einu í "Haddí" hjá skvísunni. En áramótin voru með nokkuð góðu móti þetta árið og spilamennskan í fyrirrúmi og okkur fannst það sko ekki leiðinlegt.
Hér koma nokkrar myndir frá áramótunum fyrir norðan - á Dalvík:

F.V. Bogga, Haddí, Hafliði og Rúnar (öll að segja "ostur").












Guðrún Jóhanna og Elvar Freyr orðin þreytt á að bíða eftir að komast út og horfa á "sprengjurnar".
Systkinin (Bogga og Hafliði), hafa örugglega sjaldnar verið jafn góðir vinir og þarna. ;-)
Bogga að knúsa Guðrúnu, sem var að tía sig í bólið og hvíla sig. Mæðgurnar voru svo fínar og sætar!
Við Bogga rétt áður en við fórum út að sjá "sprengjurnar".
Jæja, dyggi leshópurinn minn.
Ég óska ykkur öllum hamingju og friðar á nýja árinu og megi ykkar farnast vel í öllu sem þið takið ykkur fyrir hendur á því herrans ári -2008!
Bless í bili,
Hrannsla.

laugardagur, desember 01, 2007

Nóvember lokið.

Jæja dyggu lesendur, þá er loksins komið að nýrri bloggfærslu frá mér. Þessi mánuður hefur út af fyrir sig verið nokkuð viðburðarríkur hjá okkur.



Þann 10. nóvember síðastliðinn gengu Siggi frændi minn og Helen hans, í hjónaband. (Ég setti hér mynd af þeim til gamans). Athöfnin var ægi fögur, sem og voru þau bæði. Og ekki er annað að sjá og að heyra, en að allt gangi bara nokkuð vel hjá þeim skötuhjúum eftir að þau urðu eitt. :-)





Frænka mín og frændi, sem deila íbúð, buðu okkur í mat á dögunum. Þar var ekta jólastemmning. Hamborgarahryggur, brúnaðar mellur, malt og appelsín, rauðkál og alles. Frændi minn var að fara til útlanda í rúman mánuð og ákváðu þetta frændfólk mitt að hafa íslenskan jólamat sunnudeginum áður en hann fór, og okkur hjúunum var boðið. Við vorum ekkert smá ánægð með það! En því miður þurftum við að fara snemma heim úr boðinu vegna tannpínu. :-( En góður var bæði maturinn og félagsskapurinn. :-)



Þremur dögum eftir þessi veisluhöld var okkur svo boðið á jólahlaðborð á Hótel Loftleiðum. Mmm... Það var æðislegt. Reyndar át ég svo mikið að ég er búin að vera hálf aum í mallakútnum upp á síðkastið. hehe... En það lagast vonandi fyrir jól.



Jól! Það eru að koma jól. Ég veit um duglegt fólk sem er búið að skreyta og versla allt fyrir jólin. En það fólk er ekki ég - svo mikið er víst! Aðeins tuttugu og fjórir dagar til jóla og við höfum einungis verslað fjórar jólagjafir. Þetta er reyndar nýtt í mínu lífi, þar sem ég hef alltaf verið fremur snemma í öllu jólastússi. Ástæða fyrir þessu er leti og ekkert annað en leti. Jú, reyndar er líka því um að kenna að við þurfum iðnaðarryksjúgu til að ryksjúga háaloftið. Það er fremur slæmt mál að okkar eigin suga dugar ekki. Það er svaðalegur sandur þarna uppi eftir allar framkvæmdirnar. Þannig að aukaherbergið okkar er ennþá "geymsla", og þar er jóladótið okkar í augnablikinu og hefur verið síðustu mánuði. Ég er hreinlega að verða vitlaus á þessu.



Jæja, en nóg um það. :-) Við erum að fara í leikhús í kvöld og á morgun (sunnudag) er jólahófið hjá móðurfjölskyldunni minni. Svo er bíóferð á áætlun fljótlega með foreldrum mínum og próf í næstu viku. Það er sem sagt nóg á döfinni fram undan hjá okkur.



Hagkaup hefur opnað nýja verslun í Holtagörðum. Við skruppum í Bónus þar í dag og kíktum í Hagkaup í leiðinni. Ég er ekki frá því að verðið í Bónus hafi hækkað við þetta tækifæri. Og nema að þið séuð hrifin af stórmörkuðum, þá mæli ég engan vegin með þessu Hagkaupi. Eða kannski var það bara ég í dag, en mér fannst þetta TOO MUCH og við flýttum okkur út. Það er auðvelt að villast þarna inni. Ísland er að verða að lítilli Ameríku og ég er ekki hrifin.



Annað er nú ekki að frétta í bili. Nema kannski að við lentum í smá árekstri í kvöld og ástæðan fyrir því að ég er vakandi núna er hausverkur dauðans...



Næsta færsla verður ábyggilega jólalegri og jákvæðari. ;-)



Í nóvember mánuði voru nokkur afmæli sem mig langar að nefna: Guðrún varð sex ára þann tuttugasta og fjórða, Birna varð tuttugu og fimm ára þann tuttugasta og sjötta, og Inga mín varð tuttugu og átta ára þann tuttugasta og sjöunda. TIL HAMINGJU STELPUR!!! :-)




Bestu kveðjur í bili og fariði endilega varlega!


Ekki gleyma mér... ;-)

Hrannsla.

fimmtudagur, nóvember 01, 2007

Úfið hár, meikið úti um allt og maskarinn niðurlekinn...

Úfinn sjór við Gróttu á dögunum.

Sæl verið þið yndislega fólk! :-)
Það er vægast sagt búið að vera leiðinlegt veður upp á síðkastið. Það ýmist rignir eða snjóar, og þess á milli er slydda. Ég er farin að halda að við hjónin séum flutt upp í Grafarholt, eða efra Breiðholt af rokinu að dæma. Það virðist alltaf hreint vera rok, eða hvasst. Þetta er nú að verða ágætt. Ég held að við íslenska þjóðin séum búin að ná því að veturkonungur sé kominn í heimsókn.
Það þýðir víst lítið að bögga veðurfræðingana með því að biðja um betra veður. Nema kannski 30 gráðurnar. Hann gæti kannski tekið því vel, svo lengi sem að maður gerir ekki gys að honum. ;-) En ég vona nú að þetta rok fari að lægja! Kannski ég ætti að spjalla aðeins við "herforingja-veðurfræðinginn" á morgun. Æ, nei, hann gæti tekið því stinnt upp greyið... Eða kannski við þennan sem stendur alltaf fyrir austfjörðunum og gerir alla á því landssvæði "vitlausa". Hehe... :-)
En nóg um veður og þess konar fræðinga.
Það er greinilegt að mánaðrmótin eru komin. Allir eru kampakátir og brosa niður í tær. Sumir hreinlega sleppa sér í verslunarleiðangri og kaupa auðvita allt sem er á tilboði, þó svo að þeir hlutir séu alls ekki efst á þarfalistanum þá vikuna. Það sást líka vel í "vinnunni" í dag að kominn væri nýr mánuður. Það var nákvæmlega ekkert að gera, þannig að við spjölluðum bara allan tímann og hugleiddum að taka Yatzí, en nenntum því nú ekki einu sinni. :-) letidagur og rok og rigning og og og... :-)
Jæja, þá ætla ég ekki að hafa þetta lengra í bili. En mig langar að segja ykkur frá því að það eitt lag sem alltaf kemur mér í gott skap, hvernig svo sem viðrar. Þetta lag fær mig ALLTAF til að brosa!
Er napur vindur nýstir kalda kinn
Og nóttin breiðist yfir bátinn minn
Ég kemst ei hjá að hugsa vina heim til þín
Og hugsunin, hún örvar handtök mín

En þó að öldudalir okkur skilji að
Ást til þín ég geymi’ í hjartastað
Þó að stórsjóir og stormar stöðugt veikji lund
Ég sigli heim á morgun á þinn fund

Í huga mínum heitust ósk sú er
Að halla meiga höfði mínu’ að þér
Lokka fagra strjúka, líta augun í
Lengi hef ég beðið eftir því

En þolinmæði þrautum vinnur á
Með þolinmæði flest er hægt að fá
Við höldum heim á morgun, við komum vina fljótt
Ég hvísla yfir hafið “góða nótt”
Ég er algjör sökker fyrir sjómannalögunum.
Bestu kveðjur og þökk fyrir síðustu komment.
Hrannsla.
P.S. Afsakið að þetta er allt í einni klessu - vildi ekki birtast öðruvísi.

föstudagur, október 26, 2007

Hugleiðingar um vináttu...

Ingveldur og Unnur Helga, vinkonur mínar. :-)

Sælt veri fólkið, það er að segja ef að einhver les þetta. :-)
Ég er búin að vera að velta því fyrir mér um tíma hvað vinir væru mikilvægir og hvernig ég gæti haldið sem fastast í þá fáu vini sem ég á. Lengi vel hélt ég að ég ætti heilt vagnhlass af vinum. En komst svo að því að greinamunur er á vinum og kunningjum.




Kunningjar eru fólk sem ég þekkji að nokkru leiti, en hef lítið sem ekkert samband við. Kunningjar mínir eru þó nokkuð margir og þykjir mér afskaplega vænt um það fólk. Vinir hins vegar er það fólk sem að ég leita eftir að hafa samband við.

Ég er mjög rík. Ég á fáa, en afskaplega góða vini. Vinir mínir eru allir yndislegt fólk, hver á sinn hátt og allir eru þeir afar ólíkir persónuleikar. En allir eiga þeir það sameiginlegt að ég get alltaf leitað til þeirra ef eitthvað bjátar á. Þeir hlægja með mér, en ekki að mér. Þeir tala allir við mig sem jafningja, þó að ég sé kannski ekki alveg eins gáfuð og þeir. :-) Þeir gefa mér von í myrkrinu og hugga mig ef að sorg ber að. Þess konar fólk kalla ég vini mína!

Sumir vinir mínir eru afskaplega duglegir að hafa samband og búa til tíma til að bjóða mér í kaffi. Aðra hitti ég sjaldan, en þeir eru samt sem áður það fólk sem mér þykjir hvað vænst um. Ég er svo stolt að geta kallað allt þetta ólíka fólk vini mína!

Ég setti hér fyrir ofan mynd af tvemur góðum vinkonum mínum, sem ég er afar stolt af. Þær eru mjög ólíkar persónur, en alveg yndislegar báðar. Stundum langar mig að hringja í þær og segja þeim að mér þykji virkilega vænt um þær og hversu mikils virði þær eru mér í lífinu, en þori það ekki. Ég er dálítið hrædd um að þær haldi að ég sé að verða geðveik. ;-)


Ég á hérna þrjár litlar vísur um vini! :-) Sem ég ætla reyndar að semja núna. ;-) Hehe...


Hvort veistu að þú átt vin í raun
Vinur þig huggar er þú grætur
Sú vinátta þér veitir hamingjulaun
Og vill alltaf hafa á þér gætur
---
Sá er vinur sem treystir þér líka
Þó sífellt regn strái tárum
Heppin að hafa vináttu slíka
Hönd vinarins gerir að sárum
---
Líf án vina er vonlaus braut
Þá verður hugsunin lin
Vinnst með vini hver einasta þraut
Veglegt að eiga þann vin



Ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst öllum mínum vinum. Án vina minna, væri ég ekki sú manneskja sem ég er í dag. Vinátta er mikils virði og ég ber virðingu fyrir góðri vináttu. Bestu vinir mínir leita til mín ef eitthvað er að og ég reyni að að vera þeim jafn góður vinur og þeir eru mér. Ég vona að ég standi undir því.




Bestu kveðjur í bili,


Hrannsla.





P.S. Mér er batnað steinavesenið, en bakið að drepa mig enn eina ferðina. Svo að ef að þetta blogg virðist hálf furðulegt, þá er það svefnleysið... Alls ekki það að ég sé eitthvað rugluð. ;-)

þriðjudagur, október 16, 2007

Ég hlít að vera úr steinaríkinu... ;-)


Jæja, sælt veri það fólk sem enn fylgjist með mér. :-)

Mér skilst sem svo að löngu sé orðið tímabært fyrir latan bloggara að koma með nýja færslu hingað inn. Þannig að ákvörðunin um að blogga núna, var bæði af minni eigin ákvörðun, sem og að láta undan þeim væga þrýstingi sem ég hef verið beitt. (Bæ ðe vei, ég elska svona þrýsting, þá veit maður að einhver les þetta bull mitt).

Það hefur svo sem ýmislegt gengið á frá síðustu færslu, en ég ætla ekkert að vera að þylja það allt upp núna. Ástæða þess er afar einföld, ég nenni því ekki. ;-)

En helgin var viðburðarrík -auðvitað. Á laugardaginn var ég niðri á her til kl. 18:00. En á leiðinni heim byrjaði ég að finna fyrir erfiðleikum með að kingja og verk vinstra megin í "hálsinum". Svo dreif ég mig bara heim og við borðuðum kvöldmat saman, við hjónakornin. Svo komu gestir sem stoppuðu hjá okkur til rúmlega tíu, en þá var verkurinn í hálsinum orðin verulega slæmur og kúla (bólga) sem var byrjuð að vaxa út undan hökunni á mér var orðin ansi stór.

Nú sagan er eiginlega þessi: Að um miðnætti hringdi ég á lækni, því mér var ekkert farið að lítast á þetta. Svo kom hann og skoðaði mig í bak og fyrir. Hann ætlaði að skrifa upp á sýklalyf þegar að honum allt í einu datt í hug að spyrja mig hvenær þetta byrjaði að vaxa svona og verða svona sárt. Ég auðvita svaraði honum: Um kl.18 í dag. Þá hætti doksinn bara að skrifa og tók upp nýja pappíra og sagðist senda mig niður á Borgarspítala - sem hann gerði.

Eftir alls konar rannsóknir þar, sem leiddu ekkert í ljós, var ég útskrifuð á sunnudagsmorgunin. En sagt að koma aftur fyrir klukkan fjögur og tala við háls, nef og eyrnalækni. Eins hlýðin og ég er, gerði ég það auðvitað. Þar var ég send í myndartöku og í ljós komu þrír litlir kalksteinar sem stífluðu einn munnvatnskirtilinn vinstra megin. Ég var svo dregin inn á einhverja stofu þar sem þessir steinar voru skornir, klipptir og flísatangaðir úr kirtlinum mínum. Um leið og kirtillinn minn var laus við þessa óvætti sína, byrjaði hann strax að sjatna og dæla út vatni.

Áður en ég var send heim aftur, var mér sagt að vera dugleg að "mjólka" kirtilinn og að slappa bara af næstu fjóra daga. Nú hef ég verið rosalega dugleg við að "mjólka" og kúlan sem var á stærð við kíví, er nú bara eins og lítið vínber. :-) Dugleg maður - vááá... ;-) Ég hef líka verið dugleg að slappa af, þar sem ég hef verið eitthvað hálf skrítin eftir þessa steina... Eða svo satt sé, þá hef ég verið drulluslöpp. Og dagurinn í dag verri en sá í gær. Kannski vegna þess að í dag er ég komin með hita.

En sem sagt, af þessu má sjá að ég hlít að vera komin af steinaríkinu. Ég hef nú prufað nýrnasteina nokkru sinnum, gallsteina líka (eða þar til gallblaðran var tekin) og nú er það nýjasta; kalksteinar í munnvatnskirtil. Geri aðrir betur. (hehehe... :-) ) Ég vona bara svo innilega að svona steinasafn komist ekki í tísku.

En svona hljóðaði nú sú saga.


Ég bið ykkur gott fólk að gæta ykkar vel á öllu því grjóti sem þið komið nálæt, því að það getur sest að í líkama ykkar! En hafið það sem allra best elskurnar og það verður vonandi ekki svona langt í næstu færslu. ;-)

Bless í bili,
Hrannsla.

laugardagur, september 01, 2007

Blogg, blogg, blogg...

Ég gat ekki sofið og ákvað því að blogga dálítið.

Ég er enn með kvef og búin að vera með hitaseiðing, en er staðráðin í því að láta mér batna sem allra fyrst. Ég hef því ákveðið að verði ég ekki orðin góð á mánudaginn, þá fer ég sko til doksa - er orðin hundleið og þreytt á þessu kvefstandi. Kallinn minn er að ná sér rólega, en hóstar mikið á nóttunni. En hann er harður af sér og mætir í vinnuna. Ég er reyndar ekki mikið sátt við það hvað hann er að vinna mikið þessa dagana, ég sé hann orðið svo lítið. Elskuna mína. :'( En sumar vikur eru langar og aðrar stuttar og þá fáum við að eyða meiri tíma saman. :-)

Annars er svo sem ekki mikið búið að gerast hjá mér þessa dagana, annað en að við Unnur vinkona skruppum í bíó og sáum langþráða mynd númer fimm af Harry, vini mínum, Potter. Þessi mynd er að vísu sú langdregnasta til þessa, en góð var hún. Ég er svo hrifin af þessum myndum... tíhíhí. ;-) En nú er hún Unnur mín að fara út aftur í dag og ég kem til með að sakna hennar mikið. Þó svo að við höfum ekki átt margar stundir saman í sumar, þá voru þær góðar og fróðlegar, sem og alltaf þegar að við hittumst. Verst þótti mér þó að við gátum ekki farið í útilegu allar vinkonurnar saman í sumar. Ætli ég hafi ekki eyðilagt það... svona eins og von er. En annars þá óska ég hér með Unni góða ferð og góðrar "heimkomu" (svona ef ég gleymdi því).

Nú svo styttist óðum í að skólinn hjá mér byrji aftur. Hlakka smá til þess, en hef jafnframt nokkur járn í eldinum að öðru leiti sem mér þykja ansi spennandi og hlakka til að takast á við. Hmm... Það kemur í ljós hvernig gengur.



Oft staðið hef með skugga yfir mér
Svolítð mál sem ekki’í burtu fer
Hef löngum leitað svara
Ljóti vildi’ekki fara

Spurnir flæða, stundum verður mér þá á
Sýnist dimma hér í hjarta mínu þá
Hef oft orðið brotin
Og alveg niðurlotin

En ljósið mitt í lífinu þú ert mér allt
Lýsir mínu hjarta, þig elska þúsundfallt

Draumar koma’og fara dimma nótt
Dagurinn rís og allt er hljótt
Hef þig hérna hjá mér
Hamingjusöm með þér

Meðan að ég veit þú virðir mig
Verða hjarta mitt og hugur fyrir þig
Hef okkur báðum brugðist
Bar sem mér einni hugðist

En ljósið mitt í lífinu þú ert mér allt
Lýsir mínu hjarta, þig elska þúsundfallt
Loksins sátt er líka
Lifi ást sem slíka

Lengi hefur langað segja þér
Lífið hefur kveikt í hjarta mér
Hef sofandi heyrt þú stynur
Samt er ég hjá þér vinur

Að lokum vil ég þakka vilja þinn
Vonir okkar gleymdu mér um sinn
Hef nú þakklát hlotið
Hamingju’ást og kotið

Skuggar hverfa’og spurnir eftir smá
Sjáðu ég vil alltaf vera þér hjá
Hef virt þig og vona
Ég verði alltaf þín kona

Því ljósið mitt í lífinu þú ert mér allt
Lýsir mínu hjarta, þig elska þúsundfallt
Loksins sátt er líka
Lifi ást sem slíka

Samdi þetta núna áðan sem texta við lag sem ég heyrði í mynd sem ég var að horfa á. Það er auðséð fyrir hvern það er, en það væri gaman að vita hvað ykkur finnst. Allri gagnrýni tekið með þökkum. :-)

Þar til næst,
Hrannsla.