þriðjudagur, maí 29, 2007

Framkvæmdargleði eigandanna

Þessi mynd er tekin í Fjölskyldu og húsdýragarðinum síðast þegar skvísan var hjá okkur.



Það er heldur betur lítið búið að vera að frétta hjá okkur upp á síðkastið. En þar sem að maður gerir svo sem aldrei neitt, fer aldrei neitt og nennir varla að anda - þá er ekki við miklu að búast á blogg.









En þessi unga dama gisti hér hjá okkur aðfaranótt mánudags síðastliðinn og get ég ekki annað sagt en að mér þykjir svo óskaplega vænt um hana, þetta grey. Þegar að við sendum hana með flugi norður í gær til mömmu sinnar, lá við að ég færi að grenja yfir því að hún væri svo ein í flugvélinni, þrátt fyrir fylgd. Ég varð einhvern veginn óskaplega tómhent og yfirgefin. Æ, ég vona að þið skiljið mig. Mamma hennar er nú samt ósköp góð að lána okkur hana stundum. :-)









Það er nú ekki stór dagskrá framundan hjá okkur. Það verður ekki fyrr en í júnílok að við förum eitthvert út á land og eins og gefur að skilja, þá verður það líklegast vestur á firði. En framundan júní, kemur júlí og þá loks fara hjólin að snúast. Tvær vikur fyrir vestan og brúðkaup hér fyrir sunnan. Svo förum við vestur aftur og síðan norður (ef Guð lofar) yfir Fiskidaginn hinn mikla.










Í gærdag unnum við í lóðinni. Slóum grasið (ef gras skildi kalla, þetta er mest bara mosatjásur), sópuðum stéttina og tókum til. Auk þess var ágætis veður - Þannig að við settum þvottinn á útisnúrurnar. Glæsilegt! :-) Það er svo gott að geta notað þær. Oft vildi ég óska þess að ég byggji í sveit og þar væru snúrur milli rveggja staura: Ímyndið ykkur hvað það væri yndislegt að þurrka þvottinn þar. Mmmm... ;-) Það verður víst seint sagt um mig annað en að ég sé draumóramanneskja í ystu æðar. En hver er tilgangur með lífi án drauma, segji ég bara.









En þegar að við komum inn í gærkveldi, borðuðum við og horfðum svo á LOST í sjónvarpinu. Heyrðum svo aðeins í þeim gömlu úr sveitinni. Svo vorum við að gera okkur reddí til að glápa á CSI (Mánudagskvöld eru sjónvarpskvöld hjá okkur), þegar að konan á miðhæðinni kom og barði vel á dyrnar. Þá var byrjað að leka vatn úr vaskanum á WC-inu hjá henni. Okkar vaskur þar inni stíflaður og hennar farinn að leka. Við vorum til klukkan ellefu að hjálpa henni þarna niðri og svo var ákveðið að kalla á pípulagningarmann í dag - Hann er enn ókominn. En þakviðgerðarmennirnir eru byrjaðir að koma með plötur, þannig að nú fara framkvæmdirnar að byrja.










Að byrja segji ég, og framkvæmdunum á klóakinu er varla lokið. Jú þeim er víst lokið en þeir kallfuskar eiga eftir að ganga frá eftir sig. Litlu bjánarnir. ;-)










Jæja elskurnar, ég bið ykkur að hafa það gott og þið sem erfitt eigið, ekki hika við að biðja okkur um aðstoð - hvað sem er!!!








Bless í bili,

Hrannsla.

þriðjudagur, maí 22, 2007

Kaldir dagar - hvenær hlýnar?



Við fórum norður í síðustu viku og unum okkur vel þar í góðra manna hópi. Þó að ekki hafi alltaf verið hlýtt í veðri (eins og þegar þessi mynd var tekin af Hafliða og foreldrum hans). Myndina tók ég rétt í þann mund sem við vorum að fara af stað suður aftur. Þá var nú aðeins farið að hlýna á Dalvíkinni, en þennan tíma sem við stoppuðum var ýmist bara kalt eða lemjandi rigning. Brrr...

En, sem sagt, við erum komin heil á húfi til "stór"borgarinnar. Lentum reyndar í örgustu hríð á Holtavörðuheiðinni og mikilli umferð. Að mér skilst, þá hafi jörð verið alhvít í kringum Borgarnes í gærmorgun og langt fram eftir Snæfellsnesi. Ég vil sumar - NÚNA - Æ, það þýðir ekkert að væla um þetta veðurfar - við búum jú á Íslandi.

Fyrir norðan var okkur boðið í þessa líka fínu afmælisveilsu hjá Boggu mágkonu. Hún varð þrjátíu og fimm ára, blessunin. Hún bauð upp á fínustu kökuna sem bakaríin bjóða upp á um þessar mundir og þessa líka flottu heitu rétti - mér varð nú eiginlega hugsað til Svölu frænku minnar fyrir norðan þegar að ég bragðaði á þeim. - Nammi, namm. :-)

Í gær átti ég dálítið merkilegan dag. Ég fór á kaffihús með einni vinkonu minni úr "hælisgenginu" (Einni af þeim sem var með mér á Reykjalundi 2005-2006). Beta kallast hún þessi og þar sem að tvær Betur voru í genginu er þessi skrásett sem Beta hækja í símaskránni minni, því hún var allltaf að týna hækjunni sinni úti um allt. Hin Betan hefur viðurnefnið Beta hæli, eins og restin af genginu. En sem sagt ég fór á kaffi Mílanó með Betu hækju. Ég ætlaði varla að þekkja skvísuna þegar hún pikkaði mig upp heima, enda búin að losna við 76 kíló og glóir af hamingju. Orðin ástfangin og gengur svakalega vel. :-) En hvað um það, tilgangurinn er horfin með sögunni, sem var að hún fór í þessa vinsælu aðgerð og ég fór að íhuga af hverju ætti ég - aðal bollan - ekki að fá að fara í svona aðgerð??? Mig langar svo að verða svona flott skvísa eins og Beta mín, og nota bene, hún er laus við hækjuna.

Svo fór ég og hitti frænda minn í vinnunni hjá honum og hann ók mér síðan heim. Þar tók maðurinn minn við mér og við fórum að verlsa. Geðveikt stuð! (Þetta var kaldhæðni - því mér leiðast búðir). Kvöldið kom svo með pizzu frá Domino's (megavika), Lost og CSI. Síðan kom rúmið mitt yndislega. En sem sagt, skemmtilegur dagur hjá mér - uppfullur af skemmtilegu fólki.

Í dag, hins vegar, er öllu rólegri dagur. Fór í smá gönguferð og til háls, nef og eyrnalæknis. Sá ætlar að senda mig í aðgerð hið fyrsta til að laga á mér nebbann minn. En það verður ekki fyrr en í haust sem að því kemur. En á heimleiðinni varð ég að heimsækja hús foreldra minna svo að ég yrði ekki illa fyrir barðinu á hagléli. Brrr... Svo er bara þrif og afslöppun eftir hentugleika, þar til ég fer að kokka og snæða. En klukkan átta ætla ég að fara að prjóna með nokkrum vel völdum einstaklingum. ;-)

Meira var það ekki að sinni elskurnar mínar. Hafið það sem best!

Hrannsla - hin kalda Brrr..... ;-)

P.S.

Ætlar þessi grænjaxla ríkisstjórn ekki að fara að taka til starfa? Eigum við bara að bíða endalaust? (Þoli ekki Ingibjörgu Sólrúnu).

miðvikudagur, maí 16, 2007

Þið sem skiljið ensku...

True Love Means...

A girl and a guy were speeding over 100 miles per hour on a deserted road on a motorcycle.

Girl: Slow down, we're going too fast. I'm scared! And I don't want anything to happen.
Guy: Come on, do not worry. I know what I am doing. You’re having fun right?
Girl: NO...please stop!! I'm really scared.
Guy: Then tell me you love me.
Girl: I LOVE YOU! Now please slow down.
Guy: Give me a hug.
*Girl hugs him*
Guy: Can you help me out here? Will you take me Helmet off of me and put it on you? It's bugging me.

In the paper next day:
A motorcycle has crashed into a building break failure. Two people found, but only one survived.

The truth is:
That halfway down the road the guy realized that his breaks broke, but he didn't want the girl to know. Instead, he had her say she loved him and felt her hug for him for one last time. Than had her wear his helmet so she would live, even though it meant that he would die.....

Hvað finnst ykkur um þetta???

(Ef að þetta er ekki ást, hvað er það þá)?

Við erum að fara norður á morgun ef að kallinn minn er eitthvað skárri - hann er lasinn greyið. Eins og fleiri, en við nefnum engin nöfn. ;-)

Kannski bloggar maður fyrir norðan næst - who knows!

Fariði varlega í umferðinni elskurnar mínar og munið að spenna bílbeltin.

Kveðjur,
Hrannsla.

föstudagur, maí 11, 2007

Kosningardagur - 12.maí 2007!











Þrátt fyrir frábæra frammistöðu íslenska liðsins í evróvisjón komumst við ekki upp úr forkeppninni þetta árið og finnst mér þessi samstaða austur Evrópu orðin frekar þreytt. Það eru kannski einhverjir ósammála, en það er mín skoðun að þörf sé á að skipta þessari keppni upp á milli austur og vestur hluta álfunnar.

Þótti mér frekar súrt að ekkert af vestur Evrópulöndunum komst áfram. Þannig að ég mæli með að við kjósum Svía eða Finna í dag - Laugardag.
Talandi um daginn í dag, eruð þið búin að gera upp við ykkur hvað þið ætlið að kjósa??? Ég veit það eitt, að það gæti orðið tvísýnt um hvort að ríkistjórnin haldi eða ekki. En ég hef alla vega gert upp hug minn og veit að svo hafa flestir í kring um mig einnig gert. :-) En alla vega munið að kjósa - Það voru margir sem börðust lengi fyrir því að við fengum að gera það og ekki síst við kvensurnar.

En svo að við snúum okkur að öðru.

Pabbi minn útskrifaðist af sjúkrahúsinu - loksins, þó get ég ekki sagt að hann hafi útskrifast með láði, því að doksarnir halda enn í hann. Hann er að standa sig vel - karlinn. Mama hugsar um hann eins og ungabarn ;-) Passar upp á að hann borði og hvílist eftir þörfum. Hún er dugnaðarforkur, hún móðir mín!





Á mánudaginn var kom lítil skvetta til okkar og var í pössun í örfáa daga. Það var hún Guðrún litla, systurdóttir hans Hafliða míns. Það er nú hægt að segja, svo satt sé, að okkur leiddist ekki með hana hjá okkur. Hún er orðin svo stór og dugleg stelpa! Svo kallaði hún bara; Hallini sáu (Hafliði sjáðu) og þá kom frændi hlaupandi til að sjá hvað stelpan var búin að vera dugleg að púsla, lita, borða, pissa, eða hvað svo sem það var. Og "Anney" kenndi henni að segja: Sí Jú. Þegar hún var að kveðja og Konni, Ó mæ gad. Konni fékk sko að heyra nauðgun á nafninu sínu. "Konni koddu, Konni sáu, Konni..." Gaman af þessu. :-)



En við stöllur fórum í húsdýragarðinn og niður að Reykjavíkurtjörn að gefa öndunum, svona svo að eitthvað sé nefnt. Mér þótti alveg stórmerkilegt að sjá hversu mikill skilningur virtist vera á milli skvísunar og dýrana - enda elskar hún dýr! Dúfurnar til dæmis átu úr lófanum á henni - bókstaflega. Það var frábært að sjá. :-)






Jæja, það er víst ekki mikið meira að frétta hjá okkur í bili, annað en það sem fram hefur komið. Og já, ég átti æðislega helgi á kvennamóti Hjálpræðishersins á Akureyri síðustu helgina í apríl. Það var geggjað gaman og ekki skemmdi að það var tuttugu stiga hiti bæði á laugardeginum og á sunnudeginum. Ég ferðaðist í bíl með þremur frábærum konum og við skemmtum okkur við söng og prjón báðar leiðirnar. Fyrirlesarinn á mótinu var bara yndisleg og lestrarnir hennar bara góðir.


Jæja, þar til næst, hafið það sem allra best (nú verður styttra þangað til að næsta bloggi, þar sem tölvan mín er komin heim frá tölvulækninum). ;-)



Bæó,


Hrannsla


(Að kafna úr kvefi - enn einu sinni).